Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, þykir hafa sagt fátt nýtt í ræðu sem hann hélt á árlegum fundi í Jackson Hole í dag. Fjárfestar höfðu beðið eftir ræðunni með nokkuri eftirvæntingu og bjuggust margir við að þar yrðu kynntar frekar aðgerðir stjórnvalda til að örva efnahag landsins.

Bernanke sagðist búast við að efnahagur Bandaríkjanna styrkist á næstunni. Batinn hingað til hafi þó verið mun minni hingað til en vonir stóðu til. Hann sagði stjórnvöld geta gripið til aðgerða ef þörf krefur, en sagði ekki í hverju slíkar aðgerðir myndu felast eða hvenær yrði gripið til þeirra.

Markaðir vestanhafs lækkuðu töluvert við opnun, en ræða Bernanke hófst skömmu eftir opnun í dag. Fyrr í dag voru birtar nýjar hagtölur sem sýndu að hagvöxtur í Bandaríkjunum er nú 1%. Er það lækkun frá fyrri birtingu sem gerði ráð fyrir 1,3% hagvexti.

S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 1,4% í dag og Nasdaq vísitalan um 0,8%. FTSE vísitalan er um 1,9% lægri en hún var við lokun í gær. Þá hefur heimsmarkaðsverð á olíu einnig lækkað í dag.