„Mér sýnist alla vega núna að það sé fátt sem standi í vegi fyrir því en auðvitað er það ekki í höfn. Það getur vel verið að það komi upp eitthvað núna sem fær mig til að endurskoða það eða leggja annað mat á það,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, í samtali við fréttastofu RÚV um kaup á gögnum úr skattaskjólum.

Hún segir að verði gögnin keypt þurfi að leggjast í mikla vinnu við að yfirfara þau. „Þetta eru 417 mál og embættið er ekki að klára nema innan við hundrað mál á ári þannig að það er eitt af því sem þarf að fara yfir, hvernig og hvort hægt sé að annað hvort fækka málum eða vinna þetta þannig að líkindi séu fyrir því að hægt sé að klára þetta.“

Fjármálaráðuneytið lýsti því yfir í gær að erlendi einstaklingurinn sem kveðst hafa upplýsingarnar undir höndum vilji fá 150 milljónir króna fyrir gögnin. Hann vilji ekki semja um árangurstengdar greiðslur fyrir afhendingu gagnanna.