Fyrirtækið Formaco hefur aukið veltu sína mikið undanfarin ár en að sögn Ragnars Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Formaco, er félaginu ómögulegt að fá Íslendinga í vinnu og verður því að treysta á erlent vinnuafl.

"Þá hefur verið töluvert um það núna að við höfum verið að útvega verkataka erlendis frá í uppsetningu á stálgrindarhúsum. Ástæðan er einfaldlega sú að það er ekki nokkur leið að finna Íslendinga sem geta tekið þetta að sér. Hér eru allir iðnaðarmenn yfirkeyrðir og það vantar alls staðar duglegt fólk í vinnu í þessum geira sem Íslendingar vilja helst ekki starfa í. Við gáfumst t.d. upp á því að hafa Íslendinga í vinnu hér við mótaþrif og meðhöndlun á mótum á lagernum hjá okkur. Það var ekki nokkur leið að stóla á að þeir mættu í vinnu næsta dag. Við réðum því þrjá Pólverja til starfa og erum mjög ánægðir með þá," segir Ragnar Jóhannsson framkvæmdastjóri Formaco í viðtali við Viðskiptablaðið.

Launin ekki vandamálið
Ragnar segir að áhugaleysi Íslendinga stafi ekki af lélegum launum. Boðin hafi verið mjög góð laun, en frá vinnumiðlun hafi ekki verið um annað en áhugalaust fólk að ræða sem helst nennti ekki að vinna. Hann segir vel gert við Pólverjana í launum líka, enda vinni þeir vel. Hins vegar hafi um 30% gengisfall krónunnar auðvitað haft mikið að segja gagnvart þessu erlenda starfsfólki sem fái greitt í íslenskum krónum og horfi því á launin sín skerðast að sama skapi gagnvart evru.

Mikill vöxtur hefur verið á starfsemi Formaco í Reykjavík á undanförnum árum, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í vörum fyrir byggingariðnaðinn. Er það hvað þekktast fyrir hin margfrægu Doca steypumótakerfi. Enn sér ekki fyrir endann á vextinum og er fyrirtækið nú búið að sprengja utan af sér nýlegt húsnæði við Fossaleyni nærri Egilshöllinni í Reykjavík.

Formaco ehf. var stofnað í október 1997 með það að markmiði að þjónusta byggingaiðnaðinn með gæðavöru á hagkvæmu verði. Stofnendur og eigendur eru Ragnar Jóhannsson, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins í dag, og Helga Margrét Jóhannsdóttir, sem einnig starfar við reksturinn. Við stofnun fyrirtækisins fyrir 9 árum var starfsígildi 1 1/2 en er 32 í dag og tveir að bætast við. Síðan eru undirverktakar starfandi á vegum fyrirtækisins í uppsetningarvinnu. Þar er um 18 starfsmenn að ræða, einkum útlendinga.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær