Á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf. í dag var samþykkt að úthluta HB Granda hf. alls um 13.700 fermetra lóð á Norðurgarði til að byggja á frystigeymslu og móttökuhús fyrir frystan fisk. Geymslan verður um 2.500 fermetrar að stærð og mun taka um 2000 tonn af sjávarafurðum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Faxaflóahafna. Þar segir að núverandi aðstaða og frystipláss sé ekki fullnægjandi og kalli á úrbætur.  „Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur lýst yfir ánægju sinni með að fyrirtækið hyggist styrkja starfsemi sína og halda áfram uppbyggingu fyrirtækisins en samhliða úthlutun lóðarinnar á Norðurgarði gera aðilar með sér samkomulag um að HB Grandi vinni með Faxaflóahöfnum sf. og Sambandi íslneskra myndlistarmanna að hönnun á ytra byrði frystigeymslunnar þannig að útlit hennar verði öllum til mikils sóma. Þá mun HB Grandi hf. vinna á næstu árum að endurbótum á útliti eigna á lóðinni Grandagarður 20 þar sem áður var fiskimjölsverksmiðja félagsins. Loks skal nefnt að aðgát verður að hafa við framkvæmdir á svæðinu þar sem hinn "forni" Norðurgarður liggur í gegnum lóðina, en fyrirtækið mun vinna að lausn á því verkefni í samvinnu við Faxaflóahafnir sf. og Húsafriðunarnefnd.

HB Grandi hf. hyggst flytja framleiðslu sína út með skipum sem lesta mun vöru frá fyrirtækinu við Norðurgarð þannig að akstur með gáma úr Gömlu höfnina í Sundahöfn mun minnka frá því sem nú er. Það er umhverfislega jákvætt skref og bætir samhliða meðferð afurða fyrirtækisins - og lækkar kostnað. Stefnt er að því að frystigeymslan og flokkunarhúsið á Norðurgarði verði tekið í notkun upp úr miðju ári 2014,“ segir í frétt Faxaflóahafna.