Faxaflóahafnir sf. hafa ákveðið að hafa fasta starfsstöð á Grundartanga innan tíðar, en hingað til hafa fastar starfsstöðvar fyrirtækisins verið í Reykjavík og á Akranesi.

Fyrirtækið Klafi ehf. hefur samkvæmt verksamningi annast ákveðna þjónustuþætti vegna komu skipa á Grundartanga og er gert ráð fyrir því að áfram verði samið við fyrirtækið um endaþjónustu o.fl. segir í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.

Þar kemur einnig fram að auglýst hefur verið eftir tilboðum í hafnargæslu á Grundartanga, en fyrir dyrum stendur að skerpa á nokkrum þáttum í rekstri Grundartangahafnar.

Umsvif á Grundartanga hafa farið ört vaxandi og því mikilvægt að laga starfsemina að breyttum aðstæðum.  Markmið breytinganna er m.a. að bæta þjónustu Faxaflóahafna sf. samhliða hagræðingu í rekstri.

Útboðsgögn vegna öryggisgæslunnar verð afhent frá og með 12. janúar hjá VSI Öryggishönnun og ráðgjöf, Hamraborg 11. Kópavogi og tilboð opnuð á þeim stað þann 28. janúar kl. 14:00.  Útboðsauglýsinguna má m.a. sjá á vef Faxaflóahafna sf.