Forsvarsmenn Faxaflóahafna funda í dag við Elkem Solar, systurfélag Elkem Ísland sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, um möguleika á að fyrirtækið reisi kísilflöguverksmiðju í Hvalfirði.

„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni ef af verður,” segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Þetta er mjög áhugaverð framleiðsla og ekki mjög orkufrek, eða einhvers staðar á bilinu 12 til 14 megavött. Hins vegar er hún mjög mannaflsfrek og kallar á mikla flutninga. Þarna yrði um að ræða framleiðslu á kísilflögum sem síðan eru notaðar í sólarrafhlöður."

„Þeir hafa falast eftir útlistunum á nokkuð stóru landi næst Járnblendiverksmiðjunni. Þar erum við í samkeppni við Kanadamenn, en þrír staðir koma til greina varðandi staðarval. Við erum bjartsýnir á þetta, þar sem Grundartangi hefur upp á það marga kosti að bjóða. Í versta falli er ennþá um að ræða jafnar líkur. Þeir gefa sér tíma fram á vorið að taka endanlega á kvörðun um staðarvalið.”

Elkem Solar er hluti af Elkem samsteypunni sem er í eigu Orkla Group og þar með Orkla invest. Er samsteypan nú með starfsemi í yfir 40 löndum.