Bandaríska alríkislögreglan vinnur nú að því að rannsaka fall fjármálafyrirtækja á Wall Street.

Þetta kemur fram á fréttavef MSNBC en rannsókn FBI mun snúa að mögulegum hvítflibbaglæpum sem kunna að hafa farið fram áður en banka- og íbúðalánakerfi Bandaríkjanna svo að segja hrundi fyrr á þessu ári.

MSNBC hefur eftir Benton Campbell, saksóknara í New York að fjármálafyrirtæki og þær vörur sem þau bjóða upp á verði sífellt flóknari en glæpirnir sem tengist þeim séu alltaf hinir sömu.

„Þetta eru klassískar lygar, svindl og þjófnaðir,“ segir Campell. „Því meira sem breytist því meir er þetta eins.“

Þá kemur fram að rannsókn alríkislögreglunnar að athugað verði sérstaklega hvort um svindl hafi verið að ræða í afgreiðslu skuldabréfavafninga, fasteignalána og mögulegra lyga um verðmæti skuldatryggingaálags og fleira í þeim dúr.

Rannsókn FBI nær til á þriðja tug fyrirtækja.

Í frétt MSNBC kemur fram að í apríl síðastliðnum hafi Robert Mueller, forstjóri FBI sett rúmlega 200 rannsóknarmenn í að það verkefni að rannsaka hvítflibbaglæpi. Í þessari viku voru tæplega 180 aðilar að vinna að slíkum verkefnum samkvæmt upplýsingum frá FBI.