Úrvalsvísitalan hækkaði um 5,11% í febrúar og stóð í 6.592 stigum í lok mánaðarins, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Hún fór hæst í 6.925 stig innan mánaðarins. Það er jafnframt hæsta gildi hennar frá upphafi. Lægsta gildi hennar var fyrsta dag mánaðarins, 6.316 stig.

Vísitalan lækkaði nokkuð í síðustu heilu viku mánaðarins í kjölfar tilkynningar frá Fitch Ratings um neikvæðar horfur fyrir Ísland.

Ef litið er 12 mánuði aftur stóð Úrvalsvísitalan í tæpum 3.768 stigum í lok febrúar 2005. Hækkunin nemur 74,9%.

Veltan í febrúar var meira en helmingi minni en í janúar. Helstu ástæður þess eru annars vegar mikil viðskipti með bréf Íslandsbanka vegna umfangsmikilla breytinga á eignarhlutum í bankanum og hins vegar bættist Avion Group í Kauphöllina. Nokkur viðskipti voru með það síðustu daga janúar.

Jarðboranir var svo afskráð í upphafi mánaðarins en síðasti viðskiptadagur með það var 31. janúar.

Tryggingamiðstöðin hækkaði um 50% í febrúar. Lítil velta var þó með bréf félagsins, aðeins um 94 milljónir króna. Markaðsvirði Tryggingamiðstöðvarinnar er tæpir 40 milljarðar króna, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Næst mest hækkaði FL Group, um 21,3% og þar á eftir fylgdi Dagsbrún með 18,9% hækkun. Í febrúar lækkuðu bréf Icelandic Group mest allra, um 12,2%, en Hampiðjan lækkaði næst mest eða um 7,6% og loks lækkuðu bréf Flögu Group um 4,5%.