Olíuverð á heimsmarkaði féll hratt í rafrænum viðskiptum í nótt vegna ótta um að versta efnahagskreppa í áraraðir muni enn draga úr eftirspurn. Á Bandaríkjamarkaði lækkaði olía til afgreiðslu í febrúar í rafrænum viðskiptum um 2,21 dollar og fór í 34,30 dollara tunnan. Síðasti dagur febrúarverðs í olíuviðskiptum er á morgun, en þá tekur mars verð við sem næsta viðmið.

Hjá NYMEX í New York var hráolíuverð í framvirkum samningum til afgreiðslu í mars skráð á 39,44 dollara í morgun, en var 40,90 dollarar við lokun markaðar í gær.

Hjá Brent í London er verð nú skráð á 43,19 dollara tunnan, en var 44,50 dollarar við lokun markaða í gær. Þarna er um að ræða olíu til afgreiðslu í mars, en olía til afgreiðslu í febrúar hefur verið á talsvert lægra verði eins og að framan greinir. Þá hafa verð í framvirkum samningum til lengri tíma einnig verið að lækka, en í byrjun mánaðarins veðjuðu margir hrávörufjárfestar á talsverða hækkun þegar liði á árið.