Flutningafyrirtækið FedEx á nú í viðræðum við flugvélaframleiðandann Boeing um kaup á 25 nýjum fraktvélum fyrir fimm milljarða dali. Bloomberg greinir frá þessu.

Flugvélarnar eru af gerðinni Boeing 767 og jafngildir áætluð fjárhæð viðskiptanna um 677 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt frétt Bloomberg hittust forsvarsmenn félaganna um helgina til þess að ræða kaupin, en talsmenn fyrirtækjanna hafa hins vegar ekki viljað tjá sig um viðskiptin enn sem komið er.

FedEx er eitt stærsta flutningafyrirtæki í heimi og hagnaðist um rúman hálfan milljarð dala á síðasta ársfjórðungi. Boeing er stærsti flugvélaframleiðandi í heimi og jafnframt stærsti útflytjandinn í bandarísku efnahagslífi, en fyrirtækið seldi flugvélar fyrir 90,1 milljarð dala á síðasta ári.