Bandaríska flutningafyrirtækið FedEx hefur náð samkomulagi um kaup á TNT, hollenskum samkeppnisaðila sínum, fyrir um 4,4 milljarða evra. BBC News greinir frá þessu.

Samkomulagið nú á sér stað tveimur árum eftir að UPS dró til baka 5,2 milljarða evra tilboð sitt í TNT. Ástæðan fyrir því að UPS dró tilboð sitt til baka voru afskipti evrópskra samkeppnisyfirvalda, en þau höfðu gefið út að ólíklegt væri að samruninn yrði samþykktur.

Samkomulagið er gert með fyrirvörum og hafa kaupin því ekki gengið í gegn, en tilboð FedEx felur í sér að hluthafar TNT frá greiddar átta evrur fyrir hvern hlut í fyrirtækinu.