Mannfræðingurinn og prófessorinn Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur komið víða við á starfsferli sínum. Hún hefur í gegnum tíðina lagt megináherslu á jafnréttismál og til marks um vel unnin störf á því sviði var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2000. Hún hefur starfað sem kennari í mannfræði, með hléum, við Háskóla Íslands í að verða fjóra áratugi. Margir muna eflaust eftir veru hennar á Alþingi, en hún sat á þingi fyrir hönd Kvennalistans kjörtímabilið 1983-1987. Hún er einn af stofnendum Kvennalistans sáluga.

Döðlur frá Marokkó

Sigríður Dúna er afkomandi verslunarmanna í báða leggi. Föðurafi hennar, Jón Sveinsson, átti þátt í að stofna Bæjarins Beztu pylsur og rekur Guðrún, systir Sigríðar Dúnu, það fyrirtæki í dag.  Móðurafi hennar, Júlíus Guðmundsson, rak svo verslun á horninu á Framnesvegi og Holtsgötu í um fjóra áratugi. Á sínum yngri árum eyddi Sigríður Dúna ófáum stundum í verslun afa síns og segir að verið geti að áhuginn á mannfræði síðar meir hafi kviknað þar.

„Þetta var stór verslun á þess tíma mælikvarða, nýlenduvöruverslun, eins og það var kallað, öðru megin og kjötbúð hinum megin. Þetta var heill heimur og það var algjört ævintýri fyrir unga stelpu eins og mig að fá að skottast þarna og svo afgreiða þegar ég hafði aldur til. Í verslunina komu vörur frá öllum heimshornum; döðlur frá Marokkó, appelsínur frá Spáni, kanill og kardemommur frá dularfullum löndum langt í burtu, kindakjöt frá Sláturfélaginu og þannig mætti áfram telja. Mannfræðin fjallar um fólk um víða veröld, um mismunandi menningu og umhverfi, og fyrir mig sem ungling rúmaðist heimurinn í búðinni hans afa. Ég vildi sjá þennan heim, þekkja hann og skilja og þegar kom að námsvali eftir stúdentspróf getur verið að búðin hans afa hafi haft þar sitt að segja."

Breytt staða kvenna eftir barnsburð

Líkt og áður segir þá hafa jafnréttismál skipað stóran sess í lífi Sigríðar Dúnu og hafa að hennar sögn gert það síðan hún var ung.

„Ég var í menntaskóla, sextán eða sautján ára gömul, þegar Rauðsokkahreyfingin kom fram á sjónarsviðið og ég áttaði mig ekki á því að ég gæti gengið til liðs við hreyfinguna. Konurnar sem voru í henni voru eldri en ég og virtust vita svo miklu meira en ég. Rauðsokkahreyfingin var mjög mikilvæg og merkileg hreyfing og hún kom þeirri hugmynd inn hjá menntaskólastelpu eins og mér að ég gæti gert allt það sama og strákarnir sem voru með mér í skóla. Ég trúði því og fór galvösk í nám erlendis strax að loknu stúdentsprófi. Ég sótti mér að lokum doktorsgráðu erlendis, en áður en að því kom gifti ég mig og eignaðist barn. Þá breyttist staða mín eins og annarra kvenna í sömu sporum á þessum tíma."

Hún hafi þá áttað sig á því að hún gæti ekki gert allt það sama og strákarnir. „Það var farið að skilgreina mig út frá móðurhlutverkinu - ég var ekki lengur mannfræðingurinn Sigríður Dúna heldur móðirin Sigríður Dúna. Ég hafði lokið fyrri hluta doktorsprófsins á þessum tíma og var stundakennari við Háskóla Íslands en það féll í skuggann af mikilvægasta hlutverki kvenna frá alda öðli, móður- og húsmóðurhlutverkinu. Mannfræðin var í þessu samhengi skilgreind sem aukavinna eða bara eitthvert dútl."

Sigríður Dúna segir að þegar hún hafi verið beðin um það árið 1981 að koma á fund með konum sem vildu gera skurk í þessum málum hafi hún ekki hikað. Eftir þann fund varð ekki aftur snúið.

„Það var svo augljóst að það var í gangi kynbundin mismunun í samfélaginu. Það lék til dæmis enginn vafi á því að það var allt annað fyrir unga karla með háskólamenntun að eignast barn en fyrir háskólamenntaðar konur. Væntingar samfélagsins til kvenna og karla voru svo gjörólíkar.

Á þessum tíma voru konur í viðskiptalífinu varla til sem hugtak ef ég man rétt, þær voru svo fáar. Við hugsuðum ekki mikið um það þá, það var svo margt sem var að. Við byrjuðum á því sem brann á okkur sjálfum, launamálunum og aðstæðum kvenna með börn. Árið 1980 voru 80% kvenna úti á vinnumarkaði. Þar af voru 77% giftra kvenna á Íslandi og laun kvenna voru að meðaltali 66% af launum karla. Um leið og allar þessar konur  voru úti á vinnumarkaðnum var aðeins pláss fyrir 9% barna á leikskólaaldri í dagvistun. Gift fólk fékk ekki fulla vistun því að einstæðir foreldrar og námsmenn gengu fyrir. Giftar konur, og ég segi konur því barnauppeldi var álitið í verkahring kvenna, áttu því í mesta lagi séns á hálfsdags vistun. Í slíkri vistun var einungis pláss fyrir 35% barna á leikskólaaldri og ástandið var hreinlega skelfilegt. Heimilisstörfin voru líka í verkahring kvenna en árið 1980 fóru að meðaltali 33 klukkustundir á viku í heimilisstörf hjá konum en 6 klukkustundir hjá körlum og var stúss við bíla þá tekið með."

Nánar er fjallað um málið í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .