Varast skyldi að líta á félagsmiðlana sem raunsanna spegilmynd samfélagsins. Í rafheimum er þýðið hreint ekki hið sama og í kjötheimum. Hér að ofan má sjá stöðuna í þeim fjórum helstu á heimsvísu. Fáum kemur sjálfsagt á óvart að þar er æskulýðurinn mun fjölmennari en miðaldra, hvað þá eldri. Hitt er óvæntara, hversu afgerandi munur er á kynjunum.

Þar vega nýmarkaðsríkin vafalaust þungt, en víða á Vesturlöndum er staðan önnur. Í Bandaríkjunum eru konur t.d. mun fjölmennari á Facebook og svo má nefna ýmsa miðla aðra, s.s. Pinterest, þar sem þorri notenda er konur. Fróðlegt væri að sjá notendasamsetningu Íslendinga, ekki síst meðal þessara virku. Það væri nú rannsóknarefni í akademíunni.