Samkvæmt rannsókn í ágúst hefti Psychological Science hafa feður sem taka þátt í uppvaski og þvotti á heimilinu mikil áhrif á framtíð dætra sinna. The Wall Street Journal greinir frá því að vísindamenn hafa komist að því að stelpur sem alast upp á heimilum þar sem jöfn skipting er á heimilisverkunum milli hjóna eru mun líklegri til að sækjast eftir störfum sem eru ekki kvenlæg. Þær eru líklegri til að sækjast eftir störfum geimfara, sjávarlíffræðings, jarðfræðings, lögregluforingja eða íþróttamanns.

Feður sem trúa á jafnrétti kynjanna en hafa ekki tekið þátt í heimilisverkum eru líklegri til að eignast dætur sem sækja í kvenlægri atvinnugreinar og vinna í framtíðinni sem hjúkrunurfræðingar, tískuhönnuðir, bókasafnsverðir eða sem heimavinnandi húsmæður.

Með því að taka þátt í heimilisstörfum segja vísindamenn að feður séu að senda dætrum sínum þau skilaboð að þær geti búist við því að eiginmenn þeirra hjálpi einnig til við heimilisverkin og þær geti því helgað meiri tíma vinnu sinni.

Samkvæmt rannsókninni sögðust konur stunda 68,2% af heimilisverkunum og barnagæslu á meðan karlar sögðust stunda 42,2% af því. Hins vegar eyddu karlar tvöfalt meiri tíma í greiddri atvinnu. Jöfn skipting heimilisverka var einungis í 15% tilfella.

Samkvæmt rannsókninni hafði skipting foreldranna á heimilisverkum engin áhrif á framtíðaráform stráka en þeir sóttust allir eftir karllægum störfum við verkfræði, læknisfræði og sem framkvæmdastjórar.