Veitingamaðurinn Tómas A. Tómasson, stofnandi Hamborgarabúllu Tómasar, og þar áður Tomma-borgara, og rekstrarstjóri Hard Rock Café á Íslandi, hélt tónleika í Iðnó á dögunum. Hann segist þurfa að finna sér eitthvað að gera eftir að hann hætti að vinna fyrst hann var ekki kosinn í stjórn Icelandair á sínum tíma eins og hann sóttist eftir.

Tómas tók þátt í uppákomu á Reykjavík Dance Festival undir yfirskriftinni „Heldra pönk“, sem haldin var um helgina. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir um ári í samtali við Tómas og son hans Ingva Tý hefur Búllan verið í útrás í Þýskalandi en þá var þriðji hamborgarastaður keðjunnar opnaður í Berlín.

„Þeir voru með svona uppákomur, alls konar skrýtna hluti, þar sem Gígja Jónsdóttir fékk til dæmis það hlutverk að setja saman pönkhljómsveit heldri borgara eins og hún kallaði það, sem þýðir náttúrulega eldri borgarar. Við vorum frá því að vera 65 ára upp í áttrætt,“ sagði Tómas í samtali við Viðskiptablaðið, en hann segir dóttur sína og eina vinkonu hafa sagt sér frá þessu.

„Þær höfðu séð þetta einhvers staðar, þetta var bara mjög skemmtilegt, ég spilaði á trommur. Við kunnum svo sem ekki mikið á hljóðfæri, einhver kunni 9 grip og ég átti trommur þegar ég var 16 ára. En við létum bara vaða, pönk er svo frjálst að maður þarf ekki að kunna of mikið til þess að geta spilað það.“

Á laugardaginn klukkan 19:15 voru svo haldnir tónleikar með afrakstrinum af starfi hópsins, sem Tómas segir hafa gengið ágætlega. „Það komu alla vega vinir og vandamenn, kannski svona 60 til 80 manns, ekki mikið meira, en það var góð stemmning, við spiluðum í alveg 20 mínútur. Við höfðum samið sex lög og svo bara bulluðum við eitthvað á milli,“ segir Tómas kíminn sem var spurður hvort hann hygðist halda áfram með tónlistarferilinn.

„Það gæti vel verið, eitthvað verður maður að gera þegar maður er hættur að vinna.“ Í því samhengi var Tómas spurður hvort hann sæi fyrir sér að reyna frekar fyrir sér með að komast í stjórnir félaga en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í mars árið 2017 hafi hann ekki erindi sem erfiði þegar hann bauð sig fram í stjórn Icelandair .

„Ég var nú feginn að ég var ekki kosinn þangað, ég hefði ekki haft neitt að segja í þessu árferði sem er búið að vera síðan þá,“ segir Tómas sem neitar því að hafa frekari áætlanir um framboð í stjórnir, en á sínum tíma nefndi hann að hann vildi taka til í hótel- og veitingarekstri fyrirtækisins þar sem hann sagði mikla sóun eiga sér stað.

„Neinei, ég ætla bara að sinna tónlistarferlinum. Ég var heppinn að komast ekki inn. Ég hefði alveg verið til í að taka þátt í þessu, en ég hefði ekki haft neitt að segja miðað við allt sem á hefur gengið síðan.“ Sjá má innslag um hátíðina í Menningunna á RÚV , en umfjöllunin um pönksveit heldri borgara byrjar 18:42.