Kínverskir bankar lánuðu um 88 milljarða dollara til nýrra verkefna í fyrstu viku ársins, samkvæmt upplýsingum Economic Information Daily sem birtar voru í dag.

Reuters fréttastofan segir að þetta sé næstum tvisvar sinnum meira en mánaðarlegt meðaltal á seinni helmingi síðasta árs.

Í frétt Reuters kemur fram að kínverskir bankar stundi það venjulega að bóka lán í janúarmánuði til þess að fegra efnahagsreikning sinn. Þá kemur einnig fram að hugsanlega sé þetta gert í jafn stórum stíl og raun ber vitni, vegna ótta við að lokað verði fyrir miklar lánveitingar á næstunni.

Seðlabankinn í Kína gaf það út á fimmtudaginn í síðustu viku að nú gripið yrði til aðgerða til þess að hindra frekar aðgengi að lánsfé, en mikið framakvæmdaskeið í landinu hefur að stóru leyti verið drifið áfram með erlendu lánsfé, einkum dollurum frá Bandaríkjunum. Ólíkt nær öllum löndum heimsins hefur Kína haldið áfram í miklum hagvexti þrátt fyrir heimskreppuna. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 8,6% á þessu ári. Aðeins hið orkumikla Katar gerir ráð fyrir meiri hagvexti á þessu ári, af ríkjum heimsins. Gert er ráð fyrir 24,5% hagvexti þar í landi, sem skýrist að mestu af því að nýjar gaslagnir verða teknar í notkun á árinu sem styrkja efnahag landsins enn frekar.