Hugverkasjóður Íslands er með rúmlega 113 milljónir króna í neikvætt eigið fé eftir tugmilljóna taprekstur á hverju ári undanfarin fimm ár. Sjóðurinn gerði á sínum tíma samninga við þekkta íslenska tónlistarmenn að undirlagi Sjóvá og Íslandsbanka og síðar Baugs. Sjóðurinn var svo tekin yfir af gamla Straumi Burðaráss vegna krafna í þrotabú Stoða, áður FL Group.

Fimm ára taprekstur
Sjóðurinn hefur verið rekinn með yfir hundrað milljóna króna tapi undanfarin fimm ár og í lok árs 2011 var eigið fé félagsins neikvætt um rúmlega 113 milljónir króna. Helstu eignir Hugverkasjóðsins felast í 9 félögum um  höfundarréttartekjur íslenskra tónlistarmanna sem fengu lán gegn tekjustreymi af höfundarréttartekjum til tíu ára.

Hæsta lánið var til Bubba Morthens upp á 36 milljónir króna en það lægsta til Jóns Ólafssonar upp á 6,5 milljónir króna. Þessar eignir eru í dag metnar á um 137 milljónir króna samkvæmt bókum Hugverkasjóðsins. Tíundi tónlistarmaðurinn sem var sá fyrsti til að gera slíkan samning, Bubbi Morthens, keypti Tónlistafélagið Lit á árinu 2011 á 14,3 milljónir eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku. Hugverkasjóðurinn bókfærði 5,9 milljóna  króna tap vegna sölunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.