Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 5,5% í launum eftir samþykkt stjórnar fyrirtækisins í lok síðasta mánaðar, afturvirkt til 1. mars síðastliðins, að því er Fréttablaðið greinir frá, en ekki voru allir stjórnarmenn á eitt sáttir um hækkunina.

Nam hækkunin 130 þúsund krónum á mánuði svo laun hans nú nema því um 2,5 milljónum króna. Auk þess fær hann væntanlega ríflega hálfa milljón í eingreiðslu vegna ákvörðunarinnar um að launahækkunin sé afturvirk.

Á fundinum gagnrýndi Valgarður Lyngdal Jónsson stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur ákvörðunina, en tillagan var samþykkt með öllum hinum fimm atkvæðunum í stjórninni. Benti hann á að hækkunin nú væri hærri en 3,7% hækkun stjórnarmanna OR á síðasta aðalfundi, en hann vildi að forstjórinn fengi sömu hækkun nú.

Frá árinu 2017 hafa grunnlaun forstjórans hækkað um rúmlega 300 þúsund í þremur launahækkunarákvörðunum, en eða 14%, en á sama tíma hefur vísitala launa í landinu hækkað um 13%. Ofan á grunnlaunin fær forstjórinn að auki 132 þúsund króna bifreiðahlunnindi.

Þrátt fyrir þessar hækkanir hafa heildarlaun Bjarna lækkað á milli ára, því hann fær ekki lengur ríflega einnar milljóna launagreiðslu fyrir stjórnarformennsku í tveimur dótturfélögum Orkuveitunnar, það er Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur, sem gáfu honum yfir þriggja milljóna króna laun á mánuði.

Var ákvörðunin um að hann hætti í stjórnum félaganna tekin í kjölfar niðurstöðu innri endurskoðunar OR um vinnustaðamenningu og mannauðsmál hjá OR samstæðunni sem gerð var í vetur, en þau mál hjá fyrirtækinu voru mikið í deiglunni á síðustu misserum.