Geoff Morrell, fyrrum stjórnandi hjá Disney, fékk 8,4 milljónir dala, eða um 1,2 milljarða króna, í laun frá bandaríska afþreyingafyrirtækinu. Hann starfaði aðeins í fjóra mánuði hjá fyrirtækinu. Jafnvel fyrir skemmtanaiðnaðinn þykja launakjör Morrell afar há, að því er segir í frétt Wall Street Journal.

Viðskiptamiðillinn reiknar það út að Morrell hafi fengið um 119,5 þúsund dali, eða 17 milljónir króna, daglega í laun sé miðað við þá 70 virka daga sem hann starfaði hjá Disney. Stór hluti launakjara hans voru í formi hlutabréfahlunninda.

Sé starfslokasamningur hans tekinn með í útreikninginn hækkar fjárhæðin upp í 176,7 þúsund dali á dag eða um 25 milljónir króna.

Disney greiddi honum einnig 500 þúsund dali, eða 71 milljón króna, fyrir að flytja með fjölskyldu sinni frá London til Los Angeles og aðra 500 þúsund dali til að flytja aftur eftir að hann missti vinnuna. Eftir að hann yfirgaf fyrirtækið keypti Disney 4,5 milljóna dala húsið sem Morrell hafði eignast í suðurhluta Kaliforníu.

Kjör Morrell hjá Disney líta dagsins ljós á sama tíma og fyrirtækið sætir gagnrýni fyrir há launakjör æðstu stjórnenda.

Lenti strax í fjölmiðlafári

Morrell var ráðinn til Disney í byrjun síðasta árs sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs samstæðunnar. Hann kom til Disney frá orkurisanum BP en hann hafði áður starfað sem upplýsingafulltrúi bandaríska varnarmálaráðuneytisins og fréttaritari ABC News í Hvíta húsinu.

Skömmu eftir að Morrell hóf störf þurfti hann og þáverandi forstjóri, Bob Chapek, að glíma við fjölmiðlafár vegna nýrra laga um réttindi foreldra í menntun í Flórída-fylki, sem banna grunnskólakennurum að ræða kynhneigð og kynferðisleg málefni við nemendur í þriðja bekk og yngri.

Morrell var meðal stjórnenda sem studdu þá nálgun að halda fyrirtækinu utan pólitískrar umræðu eins og hægt er þegar kemur að viðkvæmum málefnum. Ákvörðunin um að taka ekki afstöðu strax í upphafi – en lýsa síðar yfir andstöðu gegn frumvarpinu – vakti reiði meðal starfsmanna. Disney varð skotspónn ýmissa stjórnmálamanna, þar á meðal Ron DeSantis, fylkisstjóra Flórída, vegna málsins.

Morrell vakti einnig athygli innan fyrirtækisins fyrir álitin mistök, til að mynda þegar hann tísti óvart opnunardag „Guardians of the Galaxy“ rússíbana sem hafði verið haldið leyndum.

„Eftir þrjá mánuði í þessu nýja hlutverki varð mér ljóst að þetta gekk ekki upp vegna fjölda ástæðna,“ sagði Morrell á sínum tíma. Hann yfirgaf Disney í lok apríl 2022 og starfar nú hjá ráðgjafarfyrirtækinu Teneo Holdings í Washington.

Geoff Morrell, sem starfaði um tíma sem upplýsingafulltrúi varnarmálaráðuneytisins Bandaríkjanna, er hér með Robert Gates, þáverandi varnarmálaráðherra, í Afganistan árið 2011.
© epa (epa)