Laun, hlunnindi og kaupaukagreiðslur Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel, námu milljón evrum, andvirði um 150 milljón íslenskra króna, á síðasta ári en ekki 200 milljónum króna. Marel sendi frá sér leiðréttan ársreikning en í fyrri útgáfu ársreikningsins var ranglega greint frá reglulegum launum Árna Odds.

Samkvæmt leiðréttri útgáfu af ársreikningnum námu regluleg laun og hlunnindi forstjórans um 94 milljónum króna en ekki 150 milljónum eins og var í upphaflegri útgáfu. Má því áætla að greiðslur samkvæmt kaupaukum hafi verið kringum fimmtíu milljónir.

Laun Árna rekstrarárið á undan námu 910 þúsund evrum, um 125 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Gengi Marel á liðnu ári var gott en það hækkaði mest skráðra félaga í Kauphöllinni eða um 66%. Þá var félagið skráð í Euronext-kauphöllina í Amsterdam síðasta sumar.