Gerald L. Chan hefur gefið 350 milljónir dala, andvirði 40 milljarða króna, til eins af skólum Harvard háskólans, Harvard School of Public Health.

Chan er sonur auðugs fasteignaeiganda í Hong Kong og sótti sjálfur skólann. Hann útskrifaðist árið 1975 með doktorsgráðu í líffræði. Hann hefur bæði fengist við rannsóknir og viðskipti. Hann hefur að mestu helgað sig krabbameinsrannsóknum við Dana-Farber Cancer Institute.

Hann stofnaði einnig fjárfestingafélag, ásamt bróður sínum, árið 1986. Félagið hefur m.a. fjárfest í líftæknifyrirtækjum. Forbes metur eignir bræðranna á 3 milljarða dala og eru þeir í 17 sæti yfir efnuðustu Hong Kong búanna.

Wall Street Journal greinir frá því að fjárhagslega sterkustu skólar Bandaríkjanna fái nú stærri hlut gjafa og styrkja.

Þeir skólar sem eiga yfir milljarða dala í peningum og fjárfestingum fá 67% framlaga, en hlutfallið var 62% árið 2003. Þetta hefur valdið því að minni og óþekktari skólar eiga erfiðara með að fjármagna sig og verða að reiða sig meira á skólagjöld.

Svo hár styrkur er ekki einsdæmi á síðustu árum þremur árum. Cornell og John Hopkins hafa hvor fengið 350 milljónir dala, Yale hefur fengið 250 milljónir dala, University of Pensilvania 225 milljónir dala, Harvard 150 milljónir dala og Georgetown 100 milljónir dala.