Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm síðdegis í gær í máli Þorsteins Haraldssonar, endurskoðanda, gegn íslenska ríkinu. Komst hann að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið bæri að greiða Þorsteini 6,5 milljónir króna, auk dráttarvaxta, í skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar.

Atvik málsins voru þau að Þorsteinn var fastráðinn starfsmaður skattrannsóknarstjóra frá nóvembermánuði árið 2007, en var sagt upp störfum hjá embættinu í september 2012. Var uppsögnin rökstudd með þeim hætti að samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga væri skattrannsóknarstjóra gert að sæta nokkrum niðurskurði á fjárheimildum og því hefði verið ákveðið að leggja starf Þorsteins niður.

Mánuði áður en uppsagnarfrestur Þorsteins var liðinn var hins vegar hætt við niðurskurðinn og höfðaði hann því mál til heimtu skaðabóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar hans. Hæstiréttur sagði að ekki væru efni til þess að hnekkja mati skattrannsóknarstjóra að réttmætt hefði verið, í ljósi skertra fjárveitinga, að segja Þorsteini upp störfum. Hins vegar hefði niðurskurðurinn verið dreginn til baka og með því hefði brostið hinn lögmæti grundvöllur fyrir uppsögninni. Féllst Hæstiréttur því á bótakröfu Þorsteins.

Bætur hans vegna þess tjóns sem hann varð fyrir vegna starfsmissis voru metnar að fjárhæð 6 milljóna króna. Hæstiréttur taldi hins vegar einnig að með því að bjóða Þorsteini ekki starfið aftur eftir að fyrir lá að hætt yrði við niðurskurðinn hefði skattrannsóknarstjóri gerst sekur um ólögmæta meingerð. Var 500 þúsund krónum því bætt við bótafjárhæðina.