Fréttablaðið greinir frá því í morgun að starfsmaður skiptastjóra Milestone ehf. hafi fengið eftirlitslausan aðgang að rannsóknargögnum sérstaks saksóknara í tvo daga. Þetta hafi komið fram í yfirheyrslum yfir starfsmanninum vegna rannsóknar á tveimur fyrrverandi starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara.

Verjandi Karls Wernerssonar, Ólafur Eiríksson hæstaréttarlögmaður, kærði embætti sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara vegna málsins og krafðist rannsóknar á starfsháttum þess. Ríkissaksóknari vísaði kærunni hins vegar frá þar sem ekki var talið tilefni til frekari rannsóknar og málið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellingar.

Í yfirheyrslunni yfir starfsmanni skiptastjóra Milestone kemur fram að honum hafi verið veitt heimild frá sérstökum saksóknara haustið 2010 til þess að „róta“ í gögnum í skjalageymslu embættisins án eftirlits. Hafi hann verið á gangi þar sem gögn í tengslum við Milestone hafi verið geymd en þar hafi einnig verið að finna fleiri gögn tengd öðrum málum.

Verjandi Karls hefur óskað bréflega eftir rökstuðningi ríkissaksóknara á niðurfellingu málsins. Kemur fram í bréfinu að þar sem ekki sé hægt að kæra niðurstöðu ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins sé ómögulegt að meta hvort fullnægjandi rannsókn hafi átt sér stað. Krefst hann þess að fá aðgang að gögnunum eigi síðar en í dag, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.