Björgólfur Guðmundsson
Björgólfur Guðmundsson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

„Húsið var selt fyrir um einu og hálfu ári, það tókst eftir að verðið var lækkað,“ segir Sveinn Sveinsson, skiptastjóri þrotabús Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi auðmanns. Björgólfur keypti síðla árs 2007 900 fermetra sumarhús í strandbænum Cascais, sem er um 30 kílómetra vestu af Lissabon, höfuðborg Portúgals.

Bærinn er vinsæll sumardvalarstaður auðfólks. Einkahlutafélag Björgólfs fékk níu milljóna evra lán til kaupanna hjá Landsbankanum í Lúxemborg í október árið 2007. Það jafngilti um 780 milljónum króna á þávirði en í kringum 1,4 milljörðum íslenskra króna á gengi krónu gagnvart evru í dag. Fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið að Björgólfur hafi verði fimmti stærsti skuldari Landsbankans í Lúxemborg. Þar var sonur hans, Björgólfur Thor Björgólfsson, í efsta sætinu yfir skuldara bankans.

Björgólfur var að eigin ósk úrskurðaður gjaldþrota í júlí árið 2009. Vorið 2010 var sumarhús Björgólfs til sölu. Húsið var enn óselt árið 2011. Sveinn sagði í samtali við fjölmiðla ástæðuna fyrir því að húsið væri enn óselt þá að markaðurinn hafi þá verið steindauður auk þess sem tafir urðu á sölunni vegna bilaðrar vatnsdælu sem eyðilagði gróður í kringum húsið.

Sveinn segir ekkert ekkert hafa skilað sér til þrotabúsins eftir söluna á sumarhúsinu. Landsbankinn í Lúxemborg hafi átt veðin og bankinn úti því tekið söluandvirðið til sín.