„Netverslunin innan Samkaupskeðjunnar var ósköp lítil á sínum tíma en það þurfti einhver að sjá um hana. Ég var líklega beðinn því ég hafði það orð á mér að ég væri tilbúinn að stökkva á verkefnin, sem og ég hefði mikinn áhuga á tækninýjungum, og sérstaklega stafrænu þróuninni," segir Gísli Tryggvi Gíslason, nýr forstöðumaður stafrænnar tækni hjá Samkaupum.

„Nú er umsjón með netversluninni hluti af nýja starfinu, sem snýst um að nýta stafrænu tæknina á öllum sviðum starfseminnar. Ég lagði strax áherslu á að við værum með netverslun úti á landi, fyrst maður er nú þaðan og maður vissi að henni væri lítið sinnt, í samstarfi við sjálfstætt starfandi aðila í akstri sem við þekktum til á hverjum stað og hefur það gefist mjög vel. Þegar mest lét í þeirri gríðarlegu eftirspurn sem verið hefur síðustu vikurnar tífaldaðist netverslunin og þá var oft ekki mikið sofið."

Gísli Tryggvi hefur starfað fyrir Samkaup síðustu 18 árin og byrjaði í uppvaskinu. „Ég fékk aldrei neitt sem heitir snobbgen, bara alinn upp í því að maður gengi til verka í þau störf sem þurfti að gera. Að allt komi með þolinmæði og dugnaði, en svo fannst mér uppvaskið skemmtilegast og ég held að aðrir hafi verið fegnir að losna við það. Kúltúrinn í fyrirtækinu leyfir fólki að vinna sig upp og hef ég unnið með fólki sem verið hefur hér í fjörutíu ár. Lykilatriðið í því er að manni er treyst og fær ákveðið sköpunarfrelsi, og leyft að gera mistök, maður lærir svo mikið af því," segir Gísli Tryggvi.

„Ég fékk svo tækifæri sem aðstoðarverslunarstjóri á Akureyri, en upp úr því bauðst mér með dagsfyrirvara að flytjast á Blönduós og taka við nýrri verslun þar, sem var mikill og góður skóli. Margir hér í fyrirtækinu hafa einmitt farið á minni staði í stuttan tíma og farið þaðan í stærri verkefni. Ég fór svo í Borgarnes þar sem ég nýtti tækifærið og fór á Bifröst samhliða, enda stutt að fara á vinnuhelgar."

Eiginkona Gísla er Sandra Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau saman sex ára gamlan strák og stúlku sem er að verða níu ára.

„Áhugamálin eru bókalestur, tónlist og ferðalög, sérstaklega innanlands, þar sem við oft tökum skyndiákvarðanir, smyrjum nesti og skellum tjaldinu í bílinn og leggjum af stað, en við höfum reynt að skoða ákveðna hluta landsins á hverju ári. Síðan kenndi mágur minn að maður verði alltaf að hafa eitthvað til að kúpla sig út úr vinnuhugsuninni yfir í einkalífið og hef ég verið að leika mér að spila á píanó eftir myndböndum og læra lög utan að til þess."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .