Kewsong Lee hefur látið af störfum sem forstjóri Carlyle Group, eftir að stofnendur sjóðssins svöruðu ekki tillögu Lee um nýjan fimm ára samning upp á 300 milljónir dala, eða sem nemur 40 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Virði launapakkans hefði þó verið bundið við frammistöðu félagsins á hlutabréfamarkaði. Carlyle er eitt þekktasta fjárfestingafyrirtæki heims, en félagið sýslar með eignir upp á 376 milljarða dala.

Lee lagði til launapakkann í vor, en fékk engin viðbrögð frá stofnendum og stjórnarmeðlimum Carlyle, þeim Bill Conway, David Rubenstein og Daniel D‘Aniello. Núverandi samningur Lee átti að renna út undir lok árs 2022, en nú er ljóst að hann mun ekki starfa út allan samningstímann.

Á síðasta ári þénaði Lee 42 milljón dala, eða um 5,7 milljarða króna. Þar af námu grunnlaun Lee 275 þúsund dala og bónusgreiðslur 5,5 milljón dala. Stærstur hluti launanna kom vegna frammistöðu félagsins á hlutabréfamarkaði.

Brotthvarf Lee varð til þess að hlutabréf í félaginu féllu í verði um allt að 11,8%. Gengið hefur aðeins tekið við sér, en er enn 8% lægra en það var fyrir viku síðan.