„Það getur vel verið að ljósmyndarinn hafi komið eftir að hurðinni var lokað. En þá var búið að loka fyrir að fleiri kæmu á fundinn,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. Öryggisvörður í höfuðstöðvum Eimskips meinaði ljósmyndara Viðskiptablaðsins aðgangi að aðalfundi félagsins í gær. Afar fátítt er að slíkt gerist hjá skráðu félagi. Hlutabréf Eimskips voru skráð í Kauphöll í fyrrahaust.

Þegar vb.is innti Gylfa eftir ástæðunni varð hann undrandi en benti á að blaðamenn hafi mátt sitja fundinn og hafi ljósmyndari mátt taka myndir áður en fundurinn hófst. Hann bætir reyndar við að til tals hafi komið að myndatökur gætu truflað aðalfundarstörfin.

„Þetta er nýtt fyrir okkur og það var svoítið spurt um þetta,“ segir Gylfi. „Það getur vel verið að ljósmyndarinn hafi komið eftir að hurðinni var lokað. En þá var búið að taka saman hversu margir voru mættir og ekki fleirum hleypt inn. Það var bara búið að loka fyrir að fleiri kæmu á fundinn.“