Atli Rafn Sigurðsson, fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið sem tók sér ársfrí til að leika í Borgarleikhúsinu en var rekinn fyrirvaralaust þaðan veit hvorki í hverju ásakanir þær sem á hann eru bornar felast, frá hvaða tíma eða hvern hann á að hafa brotið gegn.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér sem hann segir brottvikninguna koma í kjölfar „Me Too“ umræðunnar, sem hann segir þó þarfa. En þar sem honum hafi ekkert verið greint frá eðli ásakananna áður en honum var sagt upp störfum segist hann ekki munu tjá sig frekar um málið.

Brottvikningin þýðir að fresta þarf frumsýningu Medeu um óákveðinn tíma, þar sem Atli Rafn átti að leika aðalhlutverkið, en æfingar hafa staðið yfir við verkið í haust og áttu sýningar að hefjast milli jóla og nýárs.

Hér fer yfirlýsing Atla Rafns í heild sinni:

„Í fjölmiðlum í dag kom fram að mér hafi verið sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu. Brottreksturinn kemur til vegna nafnlausra ásakana á hendur mér, sem tengjast þeirri þörfu umræðu í samfélaginu sem kennd er við „Me Too“.

Mér hefur ekki verið greint frá því hvers eðlis þær ásakanir eru, frá hvaða tíma, hverjir eiga í hlut, né nokkuð annað sem getur gert það að verkum að ég geti tjáð mig um þær. Vegna þess mun ég ekki tjá mig frekar um málið.

Ég þakka starfsfólki Borgarleikhússins kærlega fyrir samstarfið og harma að það hafi endað á þessum nótum.“