Yfirskattanefnd (YSKN) hefur fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að kaupanda fyrstu íbúðar verði gert að greiða fullt stimpilgjald vegna hennar. Ástæðan fyrir niðurstöðu sýslumanns var sú að maðurinn hafði erft eignarhluta föður síns við andlát þess síðarnefnda.

Maðurinn og kærasta hans festu kaup á íbúð á haustmánuðum síðasta árs. Kærasta hans fékk helmings afslátt af stimpilgjaldi þar sem um fyrstu kaup hennar var að ræða. Manninum var hins vegar synjað um afsláttinn samkvæmt fyrrgreindum forsendum enda taldi sýslumaður að hann hefði áður verið íbúðareigandi.

Þessu vildi maðurinn ekki una. Hann hefði að vísu um skeið verið skráður eigandi íbúðar en hann hafði eignast helmingshlut í henni, ásamt bróður sínum, þegar hann var tíu ára gamall. Íbúðina hefði hann fengið í arf eftir föður sinn en hún hefði verið seld skömmu síðar og hann aldrei átt í henni. Krafðist hann þess að ákvörðunin yrði endurskoðun og honum yrði ekki gert að greiða 53.200 krónur í stimpilgjald.

Lögum um afslátt af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa var breytt árið 2015. Áður gilti sú regla að afslátturinn tæki aðeins til kaupa sem gerð væru á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Þetta skilyrði var fellt út árið 2015 þar sem það reyndist erfitt í framkvæmd enda erfitt að færa sönnur á slíkt. Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar þingsins um breytinguna sagði meðal annars að það gæti leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu ef eigandi flytur tímabundið erlendis til náms eða starfa eða leigi það tímabundið út.

„Samkvæmt framangreindu hefur umrædd lagabreyting aðallega haft það markmið að einfalda framkvæmd stimpilgjaldslaga en jafnframt stefnt að því að rýmka rétt til helmingsafsláttar af stimpilgjaldi að því leyti að ekki yrði lengur skilyrði að hið keypta húsnæði yrði ætlað „til eigin nota“. Ekkert kemur á hinn bóginn fram um það í tiltækum lögskýringargögnum að ætlunin hafi verið að þrengja þann rétt frá því sem áður gilti með því að engu skipti um notkun kaupanda íbúðarhúsnæðis á íbúðarhúsnæði sem hann kynni áður að hafa verið þinglýstur eigandi að,“ segir í úrskurði YSKN.

Að mati nefndarinnar var afar langsótt mat sýslumanns að leggja eignarhald íbúðarhúsnæðis, sem komið hefur til vegna arftöku, að jöfnu við kaup á íbúðarhúsnæði. Sú túlkun væri ekki heldur í samræmi við vilja löggjafans um að veita fyrstu kaupendum afslátt til að styðja við kaup á fyrstu íbúð. Var ákvörðun sýslumanns því felld úr gildi.

Í niðurlagi úrskurðarins finnur nefndin að því að meðal gagna málsins var hvorki tilkynning sýslumanns um greiðslu stimpilgjaldsins né kvittun fyrir móttöku þess. Í lögum um stimpilgjald er ekki áskilið að samhliða rökstuðningur sýslumanns fylgi ákvörðun en hins vegar var talið að sýslumanni væri skylt, í samræmi við leiðbeiningarreglu stjórnsýslulaga, að leiðbeina aðila um að fá ákvörðun.