Göngumaður á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu námskeiðshaldara vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir á leið upp á Snæfellsjökul. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem taldi ekki sýnt fram á saknæma háttsemi námskeiðshaldarans.

Umrædd ferð átti sér stað í lok apríl 2019 en um stóran hóp göngugarpa var að ræða. Þeim var skipt í minni hópa, átta til níu manns, sem gengu saman í línu og fór leiðsögumaður fyrir hverri þeirra. Ágætis skyggni var að morgni þegar lagt var af stað en eftir því sem leið á daginn versnaði veður. Var því stuðst við GPS-punkta á leið upp á topp.

Í ferðinni varð það óhapp að leiðsögumaðurinn í línu tjónþola, sá sem fór fyrir hópnum, féll fram af brún og varð það til þess að kærandi málsins hrasaði, dróst með línunni og hlaut af því áverka af öxl. Tæpa klukkustund tók að hífa fararstjórann upp að nýju áður en hægt var að halda för áfram.

Tjónþoli taldi að hann ætti rétt á bótum vegna þessa þar sem hætta hefði átt við ferðina sökum slæms skyggnis. Enn fremur hefði vantað leiðbeiningar um hvernig ætti að bregðast við í línu ef háska bæri að.

Fól ekki í sér áhættutöku

Tryggingafélagið hafnaði aftur á móti bótaskyldu. Um fjögurra mánaða námskeið hefði verið að ræða og lagt hafi verið á jökulinn eftir átta fjallgöngur hópsins auk fræðslukvöld. Ítarlegar upplýsingar hefðu verið sendar hópnum um notkun lína og að brugðist hafi verið rétt við í kjölfar fallsins. Auk þess væri afar hæpið að rekja mætti líkamstjónið til atviksins á jöklinum þar sem allur þungi af línunni, sem lenti á kæranda, hefði verið tekinn af um leið og björgunaraðgerðir hófust. Að endingu var vísað til þess að í göngu á Snæfellsjökul fælist áhættutaka sem almennt myndi fyrirgera rétti til bóta.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að undirbúningsgögn fyrir ferðina hafi verið fullnægjandi og að upplýsingar um veðurútlit að morgni hafi ekki verið slíkar að aflýsa hefði þurft ferðinni. Það að veður hafi versnað verði ekki metið starfsfólki til sakar og ekki var almennt talið varhugavert að styðjast við GPS-punkta við þær aðstæður sem uppi voru.

Enn fremur sagði í niðurstöðu nefndarinnar að ekkert saknæmt hefði verið við háttsemi leiðsögumannsins heldur hafi verið um óhappatilvik að ræða. Aðgerðir í kjölfar slyssins voru, að mati nefndarinnar, réttar og ekki til þess fallnar að valda tjóni.

„Á þeim forsendum verður ekki fallist á að [tryggingafélagið] beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni [tjónþola] í umrætt sinn. Að því sögðu verður einnig tekið fram að ekki verður heldur fallist á að ganga á Snæfellsfellsjökul feli í sér samþykki eða áhættutöku í skilningi skaðabótaréttar,“ segir enn fremur í niðurstöðu nefndarinnar.