Stjórnmálaflokkurinn Venstre keypti föt fyrir Lars Lokke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra og formann flokksins, fyrir um 150 þúsund danskar krónur, eða þrjár milljónir danskar, á árunum 2010 og 2011. Málið er orðið að miklu hitamáli i Danmörku. Fréttir af því prýða meðal annars forsíðu á vef danska ríkisútvarpsins.

Fötin voru keypt á þeim tíma og Rasmussen var forsætisráðherra og voru keypt í versluninni Zorning á Frederiksberg. Claus Richter framkvæmdastjóri Venstre segir í sms skilaboðum til Ekstra Bladet að fötin hafi verið keypt í tengslum við myndatökur og annað slíkt sem hafi verið gert vegna kosningabaráttu og ímyndaherferða flokksins. Ekstra blaðið segir að það sem var keypt hafi verið 28 skyrtur, níu pör af jakkafötum, níu buxur, 17 pör af sokkum, 21 bindi, sautján sokka og átta boxernærbuxur.

Claus Richter framkvæmdastjóri Venstre segir að allt sem Rasmussen hafi haldið eftir og nýtt í eigin þágu hafi hann greitt fyrir sjálfur. Rasmussen vill ekkert tjá sig um málið við fjölmiðla og segir það vera einkamál. „Einkafjármál mín eru einkafjármál. Það kemur engum öðrum en mér við hversu mikið ég greiði fyrir föt, pizzur eða önnur innkaup fyrir heimilið,“ segir hann.