Reynir Traustason, ritstjóri DV, fékk lán frá félagi í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims hf., til að kaupa hlutafé í DV ehf. Þetta staðfesti Reynir á fésbókarsíðu sinni í morgun. Hann segir þó að Guðmundur hafi aldrei reynt að stýra umfjöllun blaðsins.

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður velti þeirri spurningu upp í pistli sínum á Pressunni hvernig Reyni hafi áskotnast 15 milljónir króna til að leggja fram persónulega sem hlutafé í DV ehf.

„Svona í Sandkornsstíl DV getur sagan af lánveitingunni hljóðað einhvern veginn á  þennan veg: Reynir fór á fund útgerðarmanns sem átti í deilum við annan. Sá sem Reynir fór til lét Reyni fá fé. Og blaðið jafnvel líka. DV fór í framhaldi að segja frá deilum útgerðarmannanna á forsendum þess sem borgaði,“ segir í pistli Sigurðar.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum tók málið upp á heimasíðu sinni í kjölfarið. „Fáum dylst að hér ræðir Sigurður G. það sem hingað til hefur eingöngu verið hvíslað um manna á milli í lúkörum og heitum pottum.  Það er að segja að Guðmundur Krisjánsson í Brimi hafi afhent Reyni Traustasyni 15.000.000 kr. Í þeim tilgangi að losa sjálfan sig við umfjöllun um ýmis  mál og fá í staðinn umfjöllun um meðeigendur sína i Vinnslustöð Vestmannaeyja og þá helst Sigurgeir Brynjar (Binna í Vinnsló),“ skrifar Elliði.

Miklir persónulegir hagsmunir

Reynir skrifar í dag að upphaflega hafi staðið til að Guðmundur gerðist hluthafi í DV þegar félagið var í miklum fjárhagserfiðleikum. „Eftir umhugsun hafnaði hann því en bauðst til að veita mér lán sem ég tók til að nýta kauprétt á hlutabréfum úr samþykktri aukningu. Mér var ljóst að fjárfestingin var ótrygg vegna stöðu félagsins. Þessi samningur var gerður á síðasta ári. Þessar skuldbindingar mínar eru hluti af neyðaraðgerðum sem gerðar voru til bjargar félaginu. Auk þess er ég persónulega ábyrgðarmaður á 6 milljóna víxli sem DV ehf. gaf út. Þess utan er ég í ábyrgð upp á rúmar tvær milljónir vegna yfirdráttar fyrirtækisins. Af þessu sést að ég hafði mikla persónulega hagsmuni af því að félagið færi ekki illa.“

Reynir segir þó ekki rétt að Guðmundur í Brimi hafi haft nokkur áhrif á fréttaflutning blaðsins. „Fréttir DV af Vinnslustöðinni í Eyjum og af Guðmundi í Brim hafa verið skrifaðar út frá sömu sjónarmiðum og allar aðrar fréttir blaðsins. Engin leið er heldur að túlka það sem svo að þær séu litaðar af einu eða öðru. Og flestar eru þær skrifaðar áður en umrædd lánveiting átti sér stað,“ skrifar Reynir.