*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 16. júlí 2012 09:39

Fékk milljarða afskrifaða og kaupir Plastprent

Fyrrverandi stjórnarmaður í gamla Landsbankanum kaupir Plastprent eftir skuldbreytingu hjá nýja Landsbankanum.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þorgeir Baldursson, eigandi Kvosar ehf, sem keypti Plastprent af Framtakssjóðnum fyrir helgi, fékk nýverið fimm milljarða króna skuldir af átta milljörðum afskrifaðar hjá Landsbankanum og Arion banka. Kvos er eigandi prentsmiðjunnar Odda, Gutenberg og Kassagerðarinnar. Þorgeir sat í bankastjórn Landsbankans fyrir hrun. Bankinn tók Plastprent yfir árið 2009 vegna skulda og breytti kröfum í hlutafé.

Samstæða Plastprents skuldaði tæpa 2,4 milljarða króna í lok árs 2009. Þar af námu skuldir við lánastofnanir tæpum 800 milljónum króna. Árið síðar þegar Landsbankinn hafði tekið reksturinn yfir voru lán gagnvart lánastofnunum komin niður í tæpar 122 milljónir króna. Plastprent var síðan fært inn í eignarhaldsfélagið Vestia. Framtakssjóðurinn keypti Vestia síðla árs 2010 og fylgdi Plastprent þá með.

DV fjallar um viðskiptin í dag en í umfjölluninni segir að svo virðist sem umsvif Kvosar séu að aukast á ný eftir að skuldir félagsins voru afskrifaðar. 

Í blaðinu er rifjað upp að Þorgeir var umsvifamikill í viðskiptalífinu fyrir hrun. Hann sat m.a. í stjórn Baugs þegar félagið var gert að almenningshlutafélagi en hann sagði sig úr henni vorið 2003 sökum trúnaðarbrests. Um svipað leyti tók hann sæti í bankastjórn gamla Landsbankans. Baldur sat jafnframt í stjórn SPRON og var stjórnarformaður SP Fjármögnunar. Þá er Þorgeir einn af eigendum Þórsmerkur, eignarhaldsfélags Morgunblaðsins. .