Ný frystigeymsla HB Granda var vígð í gær og fékk nafnið Ísbjörninn. Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta .

Nafnið er fengið frá útgerðarfyrirtækinu Ísbjörninn sem nú er hluti af HB Granda. Stórt og mikið hús Ísbjarnarins stóð á Hrólfskálamel á Seltjarnarnesi. Það var rifið árið 2004 en ástand þess var orðið lélegt. Bubbi Morthens gerði svo nafnið ódauðlegt í lagi sínu Ísbjarnarblús.

Grandi varð til árið 1985 við sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem var í eigu Reykjavíkurborgar, og Ísbjarnarins. Ísbjörninn var í eigu Ingvars Vilhjálmssonar. Synir hans eru Jón Ingvarsson, sem var um tíma stjórnarformaður Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna, og Vilhjálmur Ingvarsson sem er látinn. Sonur Vilhjálms er Ingvar Vilhjálmsson  fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Kaupþings

Síðar var Hraðfrystistöðin, sem Einar ríki Sigurðsson, átti var seinna sameinuð Granda. Einar var m.a. faðir Ágústar Einarssonar fyrrv. þingmanns og rektors á Bifröst og Sigurðar heitins Einarssonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum. Ekkja Sigurðar er Guðbjörg Matthíasdóttir

Grandi sameinaðist svo Haraldi Böðvarssyni á Akranesi árið 2004 og úr varð HB Grandi.