*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 13. maí 2011 12:57

Fékk níu milljónir króna í þróunarstyrk

Íslenskt tölvuleikjafyrirtæki fær afhentan þróunarstyrk frá Nordic Game Program ásamt fjórtán öðrum fyrirtækjum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Nýtt íslenskt tölvuleikjafyrirtæki, Plain Vanilla, fékk í gær 400 þúsund danskar krónur í styrk frá Nordic Game Program. Jafngildir það tæpum 8,8 milljónum króna samkvæmt gengisskráningu krónunnar á hádegi í dag. Í fréttatilkynningu segir að styrkurinn hafi verið afhentur við hátíðlega athöfn í Malmö Svíþjóð. Í athöfninni hafi fimmtán norræn tölvuleikjafyrirtæki fengið afhenta þróunarstyrki.

Í tilkynningunni segir að Plain Vanilla þróar tölvuleik fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem heitir The Moogies. „[L]eikurinn er ætlaður fyrir börn á aldrinum 2-6 ára. The Moogies er tölvuleikur þar sem barnið talar við og leikur sér við hóp af teiknimyndadýrum sem hafa verið þróaðar sérstaklega fyrir leikinn. Mikil áhersla hefur verið lögð á persónusköpun og útlit í leiknum, en hann hefur verið í þróun hjá Plain Vanilla í sex mánuði," segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að áætlað er að gefa út fyrsta leikinn um The Moogies í sumar en Plain Vanilla ætlar sér að gefa út röð af leikjum og öðru barnaefni í sama myndheimi og The Moogies.