Skattrannsóknarstjóri fékk afhent nöfn 50 íslenskra aðila sem vísbendingar eru um að hafi stundað skattaundanskot. Fékk embættið um 10% þeirra gagna sem erlendur aðili vill selja honum og hafa að geyma upplýsingar um íslenska aðila í skattaskjólum. Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, staðfestir þetta í samtali við Kjarnann .

Embætti skattrannsóknarstjóra sendi í september síðastliðnum greinargerð til fjármálaráðuneytisins eftir að hafa farið yfir umrædd sýnishorn. Fer hann fram á að gögnin verði keypt, en ákvörðun þess efnis hefur ekki verið tekin ennþá.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í byrjun októbermánaðar að málið væri til skoðunar og hvort lagaheimildir væru fyrir hendi til þess að afla gagna með þessum hætti. Sagði hann aðalatriðið vera að koma í veg fyrir skattsvik. „Til að uppræta slík brot eiga stjórnvöld að beita öllum þeim lögmætu úrræðum sem virka,“ sagði Bjarni í svari til Fréttablaðsins.