„Þetta er öl en ekki lager svo hann er með pínu meiri ávaxtakeim. Hann er hæfilega maltur og svolítið vel beiskur. Við notum tékkneskt malt og humla og svo sérpantaða humla frá Nýja Sjálandi líka. Og svo er auðvitað bara vatn og ger,“ segir Sigurður Bragi um hinn nýja Október Kalda.

Sigurður Bragi Ólafsson er sonur hjónanna sem stofnuðu Kalda og hefur hann því verið viðloðandi störf fyrirtækisins síðan það var stofnað árið 2005. Fyrir þremur árum síðan réð hann sig í fullt starf hjá Kalda og kviknaði áhuginn á bruggun þá fyrst fyrir alvöru. Sigurður ákvað því að tímabært væri að sækja sér menntun í greininni og fékk undanþágu til að hefja nám við Bandarískan háskóla. Hann mun innan skamms útskrifast þaðan með diplómu í bruggun en undanþáguna þurfti hans sökum ungs aldurs.

Október Kaldi er fyrsta uppskrift Sigurðar og vann bjórinn til fyrstu verðlauna í hinni árlegu bjórkeppni að Hólum í Hjaltadal. Þar tóku sex bruggsmiðjur þátt og þótti Október Kaldi bera af. Bruggaðir voru 12.000 lítrar af bjórnum en hann kemur í verslanir ÁTVR næstkomandi mánudag.

Nánar er rætt við Sigurð Braga í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.