Eimskip og Samskip hafna ásökunum um ólöglegt samráð en Samkeppniseftirlitið hefur beint kæru til embættis sérstaks saksóknara vegna hugsanlegs brots stjórnenda og starfsmanna á samkeppnislögum. Félögin tvö eru talin hafa haft samráð um viðskiptavini og haldið þannig uppi verði. Í fréttaþættinum Kastljósi á þriðjudag kom fram að ellefu starfsmenn Eimskips og Samskipa hefðu verið kærðir til sérstaks saksóknara. Þessir starfsmenn fengu veður af þessum ákærum í þættinum en slíkar upplýsingar höfðu ekki boristþeim áður.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir undarlegt að hafa fengið upplýsingar um kæruna í Kastljósi enda hafi engar upplýsingar borist frá sérstökum saksóknar. Þetta staðfestir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips. Í þætti Kastljóss var því haldið fram að Gylfi, ásamt Ásbirni Gíslasyni, fyrrverandi forstjóra Samskipa, og Pálmari Óla Magnússyni, væru meðal starfsmannanna ellefu sem kærðir voru til sérstaks saksóknara. Ekki hefur komið fram hverjir hinir átta eru.

Óheppilegur leki

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, segir óheppilegt að verðmyndandi innherjaupplýsingum sem þessum sé lekið, enda varði þær skráð félag. „Við höfum farið yfir það með stjórnvöldum að fara verði varlega með upplýsingar sem þessar, en það er greinilegt að við þurfum að gera það betur. Að þessu sögðu er ekki hægt að fullyrða neitt um það hvaðan upplýsingarnar láku.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .