„Við borgum alla okkar skatta og stundum ekki skattabrellur.... Við geymum engar hrúgur af peningum á einhverri eyju í Karabíska hafinu,“ sagði Tim Cook, forstjóri bandaríski tæknirisans Apple, þegar hann sat fyrir svörum um skattamál fyrirtækisins frammi fyrir rannsóknarnefndar bandarískra öldungadeildarþingmanna í Washington í Bandaríkjunum í dag. Apple er gefið að sök að hafa komið sér hjá greiðslu skatta af stórum hluta tekna sinna heldur búið til vef aflandsfélaga, svo sem á Írlandi þar sem skattar eru lægri.

Carl Levin, þingmaður Demókrata og formaður rannsóknarnefndarinnar, telur skattaundanskot Apple hafa í fyrra numið níu milljörðum dala, jafnvirði 1.100 milljarða íslenskra króna.

Breska dagblaðið Financial Times fjallar um málið á vef sínum og segir Tim Cook hafa þvertekið fyrir skattabrellur hjá Apple. Þvert á móti sé hann stoltur af því sem Apple leggur til bandaríska hagkerfisins. Á sama tíma lagði hann til að bandaríska skattkerfið verði stokkað upp og mælti með því að 35% skattur á fyrirtæki verði lækkaður.