Breska netuppboðsfyrirtækið QXL Ricardo, félag sem er að hluta til í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hækkaði mest allra skráðra félaga á hlutabréfamarkaði í London, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni í London. Florissant, sem er 80% í eigu fjárfestingafélags Björgólfs Thors, Novator, á tæpan 30% hlut í QXL Ricardo.

Gengishækkun bréfa félagsins á árinu sem leið var 1.260%. Gengi bréfa félagsins um miðjan dag í gær var 125 pund á hlut og hafði þá hækkað um 4,38% í töluverðum viðskiptum.

Florissant gerði tilraun til að taka yfir QXL Ricardo snemma á síðasta ári og hljóðaði kauptilboðið upp á 800 pens á hlut, eða átta pund, og kom tilboð Florissant gengi bréfanna á skrið. Stjórnendur QXL náðu yfirráðum í félaginu með kauptilboði að virði 10 pund á hlut, og samkvæmt því tilboði var markaðsvirði félagsins 17 milljónir punda (1,84 milljarðar íslenskra króna). Markaðsvirði félagsins nú er rúmlega 210 milljónir punda, sem samsvarar 22,8 milljörðum íslenskra króna. Markaðsvirðið hefur því rúmlega tífaldast á árinu og er markaðsvirði hlutar Florissant 6,84 milljarðar króna.

Yfirtökutilraun Florissant var óvinveitt en félagið ákvað að selja ekki hlut sinn í QXL Ricardo þegar ljóst varð að ekki tækist að taka yfir félagið. "Það má segja að þetta hafi verið lán í óláni að yfirtökutilraunin mislukkaðist en hún varð til hækkunar á bréfunum," sagði talsmaður Florissant í samtali við Viðskiptablaðið.

QXL Ricardo er skráð á AIM-markaðinn í London. Félagið er samkeppnisaðili bandaríska fyrirtækisins eBay og þrátt fyrir hækkun bréfa félagsins á síðasta ári er það enn langt undir hámarksvirði þess, sem fór hæst í 2,5 milljarða punda, eða 271 milljarð íslenskra króna, í netbólunni sem sprakk árið 2000. Lægst fór gengi bréfa félagsins í 320 pens á hlut.