Straumborg, félag sem Jón Helgi Guðmundsson, löngum kenndur við Byko, á tæpan helmingshlut í á móti fjölskyldu sinni, tapaði rúmum 11,3 milljörðum króna árið 2010. Þetta bætist við sjö milljarða króna tap félagsins árið 2009 og 7,7 milljarða króna tap árið á undan. Samanlagt tap félagsins á árunum 2008 til 2010 nemur því 28 milljörðum króna. Hagnaður Straumborgar árið 2007 nam tæpum 2,4 milljörðum króna.

Straumborg heldur utan um rúman fimmtungshlut í Norvik, sem á Nóatún, Byko, Elko og Krónuna auk hluta í Norvik-banka í Lettlandi og Rússlandi.

Fram kemur í uppgjöri Straumborgar að tekjur námu 281 milljón króna samanborið við 333,5 milljónir króna árið 2009.

Tap félagsins á milli ára skýrist að stærstum hluta af breytingu á uppreiknuðu virði fjárfestinga félagsins sem lækkaði um 9,5 milljarða króna. Árið 2009 var virði fjárfestinganna lækkað um 3,3 milljarða.

Eignir félagsins námu þessu samkvæmt tæpum 24,2 milljörðum króna samanborið við 37 milljarða árið 2009.

30 milljarðar á gjalddaga á næsta ári

Eigið fé félagsins var neikvætt um sex milljarða króna í lok árs 2010. Til samanburðar var það jákvætt um rúma 5,4 milljarða í lok árs 2009 og 12,4 milljarða árið 2008. Í lok árs 2007 var eigið fé Straumborgar jákvætt um tæpa 20 milljarða.

Skuldir félagsins námu 30 milljörðum króna í lok árs 2010.

Fram kemur í ársreikningi Straumborgar að félagið hafi gert samkomulag við hluthafa og lánardrottna sem renni út 10. janúar á næsta ári. Í samkomulaginu felst að lánardrottnar geti rofið það að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hluti kröfuhafa hefur jafnframt fengið veð í eignum Straumborgar á móti skuldum. Samkomulagið felur m.a. í sér að öll lán Straumborgar eru á gjalddaga í janúar á næsta ári. Þau nema 30 milljörðum króna.

Glitnir vill þrjá milljarða frá Straumborg

Slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn Straumborg vegna framvirkra samninga fyrir hrun. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun vikunnar en slitastjórnin krefur Straumborg um þrjá milljarða króna. Straumborg keypti um miðjan desember árið 2007 hlut í Kaupþingi fyrir 6,4 milljarða króna. Deilt hefur verið um uppgjör samninganna.

Straumborg var á meðal helstu hluthafa Kaupþings fyrir hrun samtímis því að Jón Helgi og félög hans voru stórir lántakendur hjá bankanum. Fram kemur í lánabók bankans sem lekið var á netið hafi lánveitingar Kaupþings til Straumborgar og félaga tengdum Jóni Helga numið rúmum 46 milljörðum króna í september árið 2008.