Brooks Trading Ltd. hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Félagið er skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúareyjunum og var í eigu Sheikh Mohammed bin Khalifa Al-Thani, sjeiksins frá Katar. Í gegnum félagið keypti hann 5% hlut í Kaupþingi fyrir hrun.

Morgunblaðið greinir frá gjaldþroti Brooks Trading í dag. Innköllun krafna er auglýst í Lögbirtingablaðinu og rennur frestur til að lýsa kröfum í búið þann 11. október næstkomandi.

Félagið fékk 50 milljón dollara lán frá Kaupþingi skömmu fyrir bankahrunið. Viðskiptablaðið hefur áður greint frá áformum slitastjórnar Kaupþings um að stefna Al-Thani vegna viðskiptanna. Vegna fléttunnar, þar sem Al-Thani eignaðist stóran hlut í bankanum og Kaupþing lánaði fyrir, gaf sérstakur saksóknari út ákærður á hendur stjórnendum Kaupþings fyrr á þessu ári.