Félagið Ramla ehf var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur um síðustu mánaðamót og kallar skiptastjóri þess eftir því í Lögbirtingablaðinu að lánardrottnar lýsi yfir kröfum í þrotabúið. Félagið var í eigu Almars Arnar Hilmarsson, fyrrverandi forstjóra norræna flugfélagsins Sterling

Mál Ramla hefur ratað í dómsal en skiptastjóri Fons, félags sem áður var að stórum hluta í eigu Pálma Haraldssonar, krafðist þess árið 2010 að Ramla greiddi þrotabúi Fons til baka tæpar 16,9 milljónir króna til baka. Fons greiddi félaginu fjárhæðina í byrjun árs 2009 í gegnum reikning Fons hjá Glitni í Lúxemborg. Endurgreiðslukrafan sem var hluti af riftunarmálum Fons í kjölfar gjaldþrots félagsins. Málinu var vísað aftur í hérað. Morgunblaðið sagði frá því í fyrra að málið hafi upphaflega verið höfðað gegn Almari Erni og Römlu. Fallið var frá köfu á hendur Almari Erni við þingfestu málsins. Blaðið sagði Almar Örn hafa hvorki átt lögheimili á Íslandi né í Danmörku og engin starfsemi eða starfsmenn hjá Römlu. Því hafi verið fallið frá málssókn á hendur Almari Erni.

Fons keypti eins og þekkt er orðið rekstur Sterling á vordögum 2005 og var Almar Örn, þá forstjóri Iceland Express, ráðinn til að taka við rekstri Sterling. Hann hætti í febrúar árið 2008 og fór flugfélagið í þrot í október sama ár.

Neikvætt eigið fé

Samkvæmt síðasta uppgjöri Ramla fyrir uppgjörsárið 2011 var tæplega 12,2 milljóna króna tap af rekstri félagsins. Eignir námu 240 þúsund krónum um áramótin og voru þær að mestu skammtímakröfur upp á tæpar 237 þúsund krónur. Á móti eignum námu skuldir rúmum 1,5 milljónum króna. Eigið fé í árslok er neikvætt um 1,3 milljónir.

Fram kemur í ársreikningnum að félagið hafi lýst kröfu í dánarbú Hilmars Péturs Hilmarssonar upp á 11.650.000 krónur. Tekið er fram að krafan er gjaldfærð í rekstri félagsins þar sem það er mat stjórnanda að innheimtur úr dánarbúinu verði ekki neinar.