*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 26. febrúar 2013 15:36

Félag Arion banka selur svínabú í Borgarfirði

Félagið Höndlun hefur keypt tvö svínabú sem Arion banki tók yfir fyrir um þremur árum.

Ritstjórn

Höndlun ehf., félag í eigu Björgvins Jóns Bjarnasonar, hefur keypt bústofn og fasteignir svínabúsins að Hýrumel í Borgarfirði. Höndlun leigir einnig aðstöðu til svínaræktar í Brautarholti. Seljandi er Rekstrarfélagið Braut, dótturfélag Arion banka. 

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að hann hafi tekið yfir rekstur svínabúanna að Hýrumel og Brautarholti árið 2010. Hann seldi bústofn og fasteignir að Hýrumel til Stjörnugríss í júlí sama ár og fékk Stjörnugrís leigða fasteign í Brautarholti undir eldi svína. Samkeppniseftirlitið samþykkti þau kaup en síðar hafnaði áfrýjunarnefnd samkeppnismála kaupunum sem þá gengu til baka.

Í ágúst í fyrra gerði Arion banki svo verktakasamning við Björgvin Jón um rekstur svínabúsins á meðan það væri í eigu bankans. Þegar það var endanlega ljóst í kjölfar dóms Hæstaréttar nr. 277/2012 að sala á rekstrinum til Stjörnugríss myndi ganga til baka gerði Höndlun tilboð um kaup á bústofni og fasteignum að Hýrumel sem nú hefur verið gengið að.