Félag atvinnurekenda og fyrirtæki í samkeppni við Íslandspóst ohf. hafa haldið því fram í fyrri tölublöðum Viðskiptablaðsins að ríkisfyrirtækið hafi veitt röng svör þegar leitað var til þess vegna lánveitingar Íslandspósts til dótturfélags síns, ePósts ehf. Þá telja þau jafnframt að fyrirtækið ástundi mjög ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, vísar ásökunum á bug og segir fyrirtækið jafnframt hafa gengið lengra en því sé skylt þegar komi að því að gera grein fyrir flóknum rekstri sínum.

Hefur engin áhrif á afkomu einkaréttarins

Nú hefur samkeppnisaðili ykkar gagnrýnt það sem hann kallar „lánveitingu með 0% vöxtum“ frá Íslandspósti til dótturfyrirtækisins ePósts sem er á samkeppnismarkaði. Hvernig svarar þú þessari gagnrýni?

„Þetta er í raun bara spurning um með hvaða hætti Íslandspóstur heldur utan um þetta viðfangsefni. Verkefnið er í grunninn þróunarverkefni og er ekki farið að skila neinum tekjum sem heitið getur. Þetta er dótturfélag innansamstæðu Íslandspósts og því spurning hvaða þýðingu það hefur að færa vexti á kostnað í þessari stöðu. Við höfum ekki talið ástæðu til þess miðað við stöðuna eins og hún er í þessu rekstrarumhverfi ePósts. Reyndar er líka álitamál hvort það eigi ekki að færa þetta verkefni beint undir Íslandspóst sem þróunarverkefni frekar en að halda utan um það í þessu einkahlutafélagi.

Ég vil taka það skýrt fram að þetta hefur engin áhrif á afkomu einkaréttarins, einkarétturinn er ekki gjaldfærður fyrir þessu þróunarverkefni heldur er það samkeppnisreksturinn sem gerir það og þá samkeppnisreksturinn utan alþjónustu. Það sést í sérstöku kostnaðarlíkani sem eftirlitsaðilar fara yfir og geta sannreynt, þó að við séum ekki að bera það á torg fyrir Póstmarkaðinn og Félag atvinnurekenda,“ útskýrir Ingimundur.

Félag atvinnurekenda gengur of langt

Ingimundur viðurkennir að málið sé flókið en gagnrýnir framsetningu Ólafs Stephensen og Reynis Árnasonar. „Ef menn vilja þá geta þeir gert þetta tortryggilegt og flókið. Í raun heyri ég ekki í mörgum öðrum en þessum tveimur og þeir hafa séð sérstaka ástæðu til að tjá sig um þessi efni á síðum Viðskiptablaðsins. Aðalatriðið er að Íslandspóstur virði leikreglurnar og við gerum það. Í mínum huga eru samkeppnisaðilar að gera starfsemi Íslandspósts tortryggilega með rangfærslum, óhróðri og dylgjum. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að öflug hagsmunasamtök, sem Póstmarkaðurinn á aðild að, skuli nota stöðu sína og afl til þess að rægja og ala á tortryggni í garð eins fyrirtækis, jafnvel þó að það sé í eigu ríkisins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðið. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.