Félag atvinnurekenda segir að viðbúið sé að hundruð manna missi vinnuna ef frumvarp fjármálaráðherra verði samþykkt. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að með frumvarpinu ætli ríkisvaldið að bregða sér í hlutverk heildsala og smásala, í staðinn fyrir að eiga viðskipti við verslunarfyrirtæki hér á landi. Félagið lýsir yfir furðu sinni á frumvarpinu.

„Tilgangur frumvarpsins er sagður að spara í innkaupum fyrir ríkisstofnanir. Einblínt er á möguleika þess að ganga inn í útboð erlendra innkaupastofnana á mörkuðum fyrir milljónir manna erlendis. Fullyrt er að enginn kostnaður fylgi þessum ríkisinnkaupum erlendis, alveg eins og vörurnar sjái sjálfar um að koma sér til landsins, staðsetja sig á lager og dreifa sér til notenda,“ segir í tilkynningu.

Segir að frumvarpið sé fullkomlega vanhugsað. „Jafnvel þótt ríkið geti keypt vörur og þjónustu erlendis á „heildsöluverði“ er sagan ekki nema hálfsögð. Reikna þarf með kostnaði við flutninga, utanumhald, lagerhald, dreifingu, rýrnun, viðgerðarþjónustu, öryggismál, bókhald og annað það sem fylgir innflutningi og dreifingu.“

„Ísland, nei takk“

„Hér á landi annast fjöldi fyrirtækja innflutning og sölu til opinberra stofnana í harðri samkeppni. Þúsundir manna starfa hjá þessum fyrirtækjum. Skilaboð frumvarpsins eru að þekking og þjónusta þessa fólks skipti ekki máli; að ríkið geti tekið þetta að sér án nokkurs kostnaðar með því að færa störfin til útlanda.

Skilaboðin eru: Ísland, nei takk.

Fram kemur í frumvarpinu að ekki hafi verið gerð úttekt á því hvort þessi innkaup geti yfirleitt skilað einhverjum sparnaði eða dregið úr útgjöldum ríkisins. Höfundar frumvarpsins eru semsagt ekki einu sinni vissir um sparnað þótt þeir hafi gefið sér ranglega að enginn kostnaður fylgi umstanginu við að kaupa og dreifa aðföngum til ríkisrekstrarins. Til hvers er þá farið af stað?“