Stjórn Félags atvinnurekenda telur að Samtök atvinnulífsins hafi klúðrað góðu tækifæri til að ná ásættan­legum kjarasamningi þann 15. apríl síðastliðinn. Þá lá fyrir samningur sem hefði falið í sér töluvert miklar, en þó réttlætanlegar launahækkanir af hálfu atvinnurekenda. Sá samningur virtist ekki síður hugnast launþegahreyfingunni og fór nær því að tryggja hér stöðugt verðlag.

Þetta segir í tilkynningu frá stjórninni. Í henni segir að tækifæri til að ljúka við fyrri samning hafi hinsvegar aldrei gefist, vegna ofuráherslu SA á óskyld málefni.

„Fyrir vikið standa fyrirtækin nú frammi fyrir kjarasamningi sem flest þeirra ráða ekki við. Mikil hætta er á að störfum fækki og verðbólga éti upp ávinninginn. Meira að segja forsvarsmenn SA viðurkenna að boginn sé yfirspenntur.

Stjórn Félags atvinnurekenda telur að launahækkanir í kjarasamningunum séu of miklar, sérstaklega þegar litið er til eingreiðslna og launahækkana á næstu 9 mánuðum. Ekki síst eru hækkanirnar íþyngjandi fyrir rekstur sem eingöngu hefur tekjur innanlands. Afleiðingin gæti orðið uppsagnir hjá stórum hluta fyrirtækja, þvert á eiginlegt markmið langtímakjarasamninga.

Launþegar hafa tekið á sig mikla kjaraskerðingu og þannig borið hitann og þungann af hruni efnahagslífsins. Óþreyjan eftir betri tíð er því fullkomlega skiljanleg. Þær kjarabætur þurfa hins vegar að vera í takt við getu fyrirtækjanna.

Ekki bætir úr skák að ríkisvaldið skattpínir fyrirtæki og launþega sem aldrei fyrr. Félag atvinnurekenda bendir á að lækka mætti tryggingagjald meira en gert er ráð fyrir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að gera fyrirtækjunum kleift að mæta kjarasamningunum. Vilyrði ríkisstjórnarinnar hafa lítið sem ekkert að segja fyrir flest þau fyrirtæki sem hafa böðlast í gegnum algjört hrun í eftirspurn og eru að reyna að þrauka gjörningaveður efnahagslífsins.

Félag atvinnurekenda er sjálfstæður samningsaðili gagnvart m.a. VR og Rafiðnaðarsambandi Íslands. Ljóst er að kröfur viðsemjenda félagsins verða í megindráttum hinar sömu og samið hefur verið um á milli SA og ASÍ. Þeir sem á eftir koma hafa fyrir vikið lítið svigrúm. Félag atvinnurekenda var hins vegar tilbúið til samninga við viðsemjendur á sambærilegum grunni og lá fyrir milli SA og ASÍ þann 15. apríl sl.“