Félag Bakkabræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, Bakkabraedur Holding B.V. sem skráð er í Hollandi er nánast eignalaust. Það skuldar 431 milljónir evra, jafnvirði tæplega 67 milljörðum króna. Félagið hélt m.a. utan um eignarhlut þeirra Ágústar og Lýðs í Exista, stærsta hluthafa Kaupþings. Lýður var stjórnarmaður í Kaupþingi og um tíma varaformaður stjórnar bankans. Arion banki er eini þekkti kröfuhafi Bakkabraedur Holding B.V., að sögn DV.

DV fjallar ítarlega um félagið og ársreikninga þess í blaðinu í dag. Þar segir m.a. að Bakkabraedur Holding B.V. hafi tekið við um níu milljarða króna arðgreiðslu frá Exista á árunum 2006 til 2008. Eignir þess voru árið 2007 metnar á 1.070 milljónir evra, jafnvirði 97 milljarða króna á gengi þess tíma. Skuldir félagsins námu þá 154 milljónum evra, jafnvirði 15 milljörðum króna. Árið 2008 var eignarhlutur félagsins orðinn einskis virði en skuldirnar tvöfalt meiri eða 330 milljónir evra. Eiginfjárstaða þess var þá neikvæð um 330 milljónir evra.

DV segist hafa heimildir fyrir því að ástæða þess að félagið hafi ekki verið sett í þrot sé sú að samkvæmt hollenskum lögum þurfi tveir kröfuhafar að krefjast gjaldþrots. Arion banki hafi reynt að ganga á félagið en það ekki gengið. „Þar til annar kröfuhafi Bakkabraedur Holding sækir á félagið gæti reynst erfitt að setja það í þrot,“ segir í DV og bætir við að gjaldþrotameðferð gæti m.a. varpað ljósi á það hvenær félagið fékk einstök lán hjá Kaupþingi og hvert arðgreiðslur upp á níu milljarða króna runnu.