Engar eignir funduðst upp í tæplega 1,9 milljarða króna kröfur í þrotabú eignarhaldsfélagsins Milton. Félagið F-Capital, félag Baugs átti 71% hlut í Milton og Fons, félag að mestu í eigu Pálma Haraldssonar, átti rúm 29%. Það hélt m.a. utan um tæpan þriðjungshlut í bresku smásölukeðjunni Booker og var með heimilisfesti í höfuðstöðvum Baugs við Túngötuna í Reykjavík.

Félagið var stofnað árið 2007 og er aðeins til ársreikningur fyrir það sama ár. Fram kemur í uppgjörinu að félagið hagnaðist um 10,9 milljónir punda, jafnvirði tveggja milljarða króna á gengi dagsins. Eignir námu 180,8 milljónum punda, jafnvirði 33,9 milljörðum króna. Skuldir á móti námu 67,6 milljónum punda, jafnvirði tæpra 12,7 milljarða króna. Sumarið 2008 seldi félagið hlutinn í Booker til sjóðs í eigu Kaupþings.

Stjórnarmenn félagsins voru árið 2007 Stefán H. Hilmarsson og Pétur Már Halldórsson. Framkvæmdastjóri var Rúnar Sigurpálsson.

Félagið var úrskurðað gjaldþrota í nóvember árið 2010 og lauk skiptum 18. júní síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag. Í blaðinu segir m.a. að lýstar kröfur námu 1.871.945.939 krónum.