Smásöluverslanakeðjan Woolworths hefur ráðið Steve Johnson sem framkvæmdastjóra, en hann tekur við af Trevor Bish-Jones sem sagði starfinu lausu í júní.

Johnson segist ætla að einbeita sér að „verðmætasköpun fyrir alla hagsmunaaðila“ þegar hann tekur við starfinu í september.

Sala hefur dregist saman hjá Woolworths að undanförnu og minnkaði um 6,7% milli ára á sex vikna tímabili sem lauk 26. júlí.

Johnson fær 550.000 pund á ári í laun (um 86 milljónir íslenskra króna) með möguleika á bónusgreiðslum til viðbótar sem nema allt að helmingi þeirrar upphæðar.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

Unity Investments ehf., sem er í 37,5% eigu Baugs Group, er með 12,4% eignarhlut í Woolworths samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Baugs Group.

Aðrir eigendur Unity eru Stoðir (áður FL Group) og Kevin Stanford.